Þjónusta við reikningsstofnanir

VBM veitir reikningsstofnunum fjölþætta þjónustu.

 

Verðbréfamiðstöð Íslands hf. býður reikningsstofnunum upp á þjónustu samkvæmt lögum nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga.

Verðbréfamiðstöð Íslands (VBM) býður þrjár tegundir af aðildarsamningum fyrir reikningsstofnanir, eftir því hvort reikningsstofnun  er þátttakandi í millibankakerfi Seðlabanka Íslands og hvort reikningsstofnun útvisti aðgangi að Verðbréfamiðstöð Íslands hf.

Með aðildarsamningi reikningsstofnunar (RS) við VBM, fær RS aðgang að kerfi VBM, sem er vörslu og uppgjörskerfi fyrir rafbréf. RS fær einnig heimild til að senda viðskiptafyrirmæli með rafræn verðbréf til uppgjörs, auk þess að stofna reikninga fyrir viðskiptavini sína til vörslu bréfa.

Skilyrði aðildar reikningsstofnana (RS) koma fram í reglum VBM. Þar kemur fram hvaða gögnum þarf að skila inn svo unnt sé að gera aðildarsamning milli RS og VBM.

Helstu þjónustuþættir

Varðveisla eigna og réttinda

  • Rafræn eignarskráning, staðfesting um eignarhald og réttindi. Eignarskráning getur farið fram með tvennum hætti, beint á eigendur eða með skráningu á safnreikning í samræmi við heimildir. 
  • VBM getur eignarskráð hlutabréf, skuldabréf, víxla og hlutdeildarskírteini í sjóðum, bæði í íslenskum krónum og öðrum myntum.
  • Varsla verðbréfa og réttinda.
  • VBM veitir aðganga að upplýsingum um væntanlegar vaxtagreiðslur og afborganir.
  • VBM hefur milligöngu um skil á arðgreiðslum frá hlutafélagi til RS.
  • VBM hefur milligöngu um skil á vaxtagreiðslum og afborgunum frá útgefendum.
  • VBM hefur milligöngu um aðrar fyrirtækjaaðgerðir í samræmi við beiðni útgefanda.

Uppgjörsþjónusta vegna verðbréfaviðskipta

  • Uppgjör kauphallarviðskipta með rafræn verðbréf.
  • Uppgjör annarra viðskipta með rafræn verðbréf samkvæmt viðskiptafyrirmælum.
  • Uppgjörstímar VBM í Millibankakerfi Seðlabanka Íslands eru kl 10:00, 13:30 og 15:30.

Upplýsingar

  • Rafrænar skýrslur og yfirlit.
  • Upplýsingar má nálgast á heimasíðu VBM, á netfang vbm@vbm.is eða í síma 580-8600.

Markmið VBM er að veita reikningsstofnunum skilvirka og örugga þjónustu samkvæmt þeim lögum og reglum er gilda um starfsemina á hverjum tíma. Þjónusta VBM byggir á skilvirkum kerfum, ferlum og eftirliti, með það að leiðarljósi að lágmarka kostnað og rekstraráhættu.

Uppgjörsagi og reglur

Framseld reglugerð no. 2021/ees/66/02

Tilgangur reglugerðarinnar er að koma í veg fyrir uppgjörsbresti og hvetja til aga í uppgjöri eins og segir í texta þar. Ef uppgjör á sér ekki stað á umsömdum degi, eru sektir reiknaðar út og lagðar á þann sem stendur ekki við sinn hluta uppgjörs. Umrædd sekt er reiknuð daglega þar til uppgjör hefur átt sér stað. Sektin er síðan innheimt og greidd til þess sem varð fyrir umræddum bresti.