Starfsemi félagsins

Kjarnastarfsemi okkar er

  • Skráning rafbréfa í rafrænt kerfi, lögbókunarþjónusta.
  • Miðlæg vörslu og réttindaskráning.
  • Starfræksla verðbréfauppgjörskerfis.

Verðbréfamiðstöð Íslands hf. (VBM) hefur starfsleyfi sem verðbréfamiðstöð í samræmi við ákvæði laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Í því felst fyrst og fremst rafræn eignarskráning verðbréfa sem felur í sér rafræna útgáfu og skráningu verðbréfa og eignarhaldi yfir þeim. Eignarskráning felur einnig í sér skráningu hvers kyns réttinda yfir verðbréfum svo sem veðs og annarra tryggingaráðstafana. Þá mun félagið sjá um vörslu á verðbréfum og réttindum þeim tengdum.

Félagið nýtir starfsleyfið m.a. með eftirfarandi hætti:

  1. Félagið rekur verðbréfauppgjörskerfi og annast uppgjör viðskipta með rafrænt skráð bréf í samræmi við lög og reglur og í samvinnu við Seðlabanka Íslands, hvort heldur sem um er að ræða viðskipti í kauphöll eða á markaðstorgi fjármálagerninga eða utan. Í því felst m.a. að félagið annast pörun viðskipta, framkvæmir fyrirmæli vegna uppgjörs, annast staðfestingu viðskipta og önnur atriði sem tengjast ferli við uppgjör verðbréfa. Félagið mun skipuleggja og annast rekstur lánakerfis með rafrænt skráð bréf.
  2. Félagið mun skipuleggja og annast rekstur tryggingarkerfis vegna fyrirgreiðslu reikningsstofnana við Seðlabanka Íslands.
  3. Félagið annast bæði eignarskráningu beint á eigendur og á safnreikninga í samræmi við heimild í 1. mgr. 12. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 131/1997.
  4. Félagið veitir upplýsingar og þjónustu sem leiðir af utanumhaldi á hlutaskrá o.fl., s.s. upplýsingar úr hlutaskrá, aðstoð við fyrirtækjaaðgerðir, s.s. við greiðslu arðs, samruna félaga, hækkun og lækkun hlutafjár, og annarrar skýrslugerðar. Þá mun félagið einnig veita upplýsingar í tengslum við skattgreiðslur og aðalfundi, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1997.
  5. Félagið mun mynda tengingar við aðrar verðbréfamiðstöðvar og viðhalda reikningum vegna verðbréfauppgjörs, veita þjónustu vegna trygginga og aðra þjónustu er tengist uppgjöri, sbr. 2. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 131/1997.
  6. Félagið mun veita upplýsingar í hagtöluskyni, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 131/1997.

Rétt er að árétta að framangreind upptalning er eingöngu til skýringar og er ekki ætlað að vera tæmandi lýsing á verkefnum félagsins.