Reglur um stjórnarhætti

Verðbréfamiðstöð Íslands hf. (VBM) hefur starfsleyfi á grundvelli laga nr. 7/2020 um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignaskráningu fjármálagerninga sem gildir á evrópska efnahagssvæðinu og stækkar því starfsvæði VBM töluvert og er þetta stór og mikilvægur áfangi fyrir félagið. VBM mun nýta sér þessar aðstæður á markaði með tengingum við verðbréfamiðstöðvar í Evrópu. Þegar þær tengingar verða komnar á, munu þær auka aðgengi að Íslenska markaðnum og auðvelda Íslendingum að eiga viðskipti með verðbréf sem gefin eru út á evrópska efnahagssvæðinu.

VBM er hlutafélag en hlutafélagalögin kveða á um að stjórnkerfi hlutafélags skuli samsett af hluthafafundi, félagsstjórn og framkvæmdastjóra. Ákveðin valdaskipting og jafnvægi gildir milli þessara eininga. Áhætta hluthafa er takmörkuð við þá fjármuni sem inntir eru af hendi í formi hlutafjár til félagsins og bera þeir því ekki persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins umfram þá fjárhæð.

Samkvæmt 80. gr. hfl. fer hluthafafundur með æðsta vald í málefnum félagsins. Í 2. mgr. 63. gr. sömu laga kemur fram að hluthafafundur kýs stjórn en samkvæmt 1. mgr. 65. gr. hfl. ræður stjórn framkvæmdastjóra. Fram kemur svo í 1. mgr. 68. gr. hfl. að félagsstjórn og framkvæmdastjóri fari með stjórn félagsins.

Á hluthafafundi félagsins fara hluthafar með æðsta vald í málefnum félagsins, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga um hlutafélög. Hluthafar koma að ákvörðunartöku félagsins samkvæmt lögum nr. 2/1995, um hlutafélög. Samkvæmt 4.1. gr. samþykkta VBM kýs aðalfundur árlega þrjá aðalmenn í stjórn félagsins og tvo til vara. Samkvæmt 4.10. gr. skal á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar kjósa formann og ákveða verkaskiptingu að öðru leyti. Í 4.15. gr. kemur svo fram að stjórnin hefur æðsta vald í málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Hún skal annast um og hafa eftirlit með að skipulag félags og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.

Um hlutverk og skyldur framkvæmdastjóra er einnig fjallað í lögum um hlutafélög. Þannig annast framkvæmdastjóri daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið sbr. 2. mgr. 68. gr. hfl. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 70. gr. laganna kemur fram að framkvæmdastjóri eigi sæti á fundum félagsstjórnar og hefur þar umræðu- og tillögurétt, nema félagsstjórn ákveði annað í einstökum tilvikum. Í 5. mgr. sömu greinar kemur svo fram að félagsstjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar. Í 4.17. gr. samþykkta félagsins kemur fram að stjórn skuli setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Starfsreglur stjórnar VBM eru endurskoðaðar árlega. Í starfsreglum stjórnar VBM er nánar fjallað um samband stjórnar og framkvæmdastjóra o.fl. Reglunum er ætlað að kveða á um framkvæmd starfa stjórnar félagsins, helstu verkefni stjórnar, verkaskiptingu stjórnar og samskipti stjórnar, stjórnarformanns og framkvæmdastjóra. Árangursmati er ætlað að bæta vinnubrögð og auka skilvirkni stjórnarinnar og leiða í ljós þætti sem betur megi fara.

Eftirfylgni með stefnu, áætlun og verklagsreglum sem stjórnin setur er tryggð með reglulegum skýrslum framkvæmdastjóra til stjórnar, yfirferð stjórnar á rekstrinum, áhættustýringarferli, tilkynningu um innra eftirlit og öðrum fastmótuðum eftirlitsaðferðum.

VBM mun reglulega eiga fundi með Fjármálaeftirliti Seðlabankans Íslands (FME).

VBM er í eigu Innviða fjárfestinga slhf, Arion banka, Íslandsbanka, Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Lífeyrissjóðs verkfræðinga, Gildi lífeyrissjóðs, Birtu lífeyrissjóðs, Almenna lífeyrissjóðsins, Festu lífeyrissjóðs, Tplús vörslu og uppgjörsþjónustu ásamt einkafjárfestum.

Upplýsingar um stjórnarhætti

Lög um hlutafélög og lög um verðbréfamiðstöðvar, uppgjör og rafræna eignarskráningu fjármálagerninga eru aðgengileg á vefsíðunni www.althingi.is .

Heildarreglur fyrir stjórn VBM eru útlistaðar í samþykktum félagsins sem eru birtar á heimasíðu félagsins.

Víðtækar upplýsingar um stjórnarhætti VBM eru sendar til FME. Eigendur, viðskiptavinir og tilvonandi viðskiptavinir geta jafnframt óskað eftir aðgangi að ítarlegri upplýsingum.