Fréttir og tilkynningar

Fyrsta Kauphallarútgáfan skráð hjá Verðbréfamiðstöð Íslands

10. nóv. 2021

Fyrsta Kauphallarútgáfan skráð hjá Verðbréfamiðstöð Íslands

Verðbréfamiðstöð Íslands („VBM“) hefur rafrænt skráð fyrsta víxilinn í Kauphöll (Nasdaq Nordic Iceland) en VBM er nú tilbúið til að veita alla þjónustu við óskráðar og skráðar skuldabréfa- og víxlaútgáfur. Það var víxill Íslandsbanka, ISB 21 1213 sem var sá fyrsti til að vera skráður í Kauphöll en áður hefur VBM tekið sjóði og óskráð bréf í rafræna skráningu.

Þetta er enn eitt skrefið í uppbyggingu VBM en fyrr á árinu tengdist félagið nýju Millibankakerfi Seðlabanka Íslands og sköpuðust þannig forsendur fyrir samkeppni á markaði sem hingað til hefur verið einokun á frá upphafi. Sérstaða VBM felst í því að vera að fullu íslenskur innviður sem starfrækir verðbréfauppgjörskerfi og annast uppgjör verðbréfaviðskipta undir íslensku eftirliti.

Núverandi þátttakendur verðbréfauppgjörskerfis VBM eru Seðlabanki Íslands, Arion banki og Íslandsbanki, sem þar með geta sent inn viðskiptafyrirmæli með rafræn verðbréf til uppgjörs, auk þess að stofna reikninga fyrir viðskiptavini sína til vörslu rafbréfa. Verðbréfauppgjörskerfi VBM uppfyllir kröfur laga um uppgjör rafrænna verðbréfa.

Verðbréfamiðstöð Íslands er í breiðri eigu íslenskra lífeyrissjóða, bankastofnanna og annarra fagfjárfesta og starfar samkvæmt íslenskum lögum og heyrir undir fjármálaeftirlit á Íslandi. VBM gegnir hlutverki sem þjónustuaðili útgefenda og fjárfesta sem umsjónaraðili rafbréfa. Við útgáfu rafbréfa í kerfi VBM verður útgefandi aðili að rafrænni miðlun til fjárfesta. Réttindi eigenda eru varðveitt rafrænt og staðfesting um eignarhald og réttindi liggur því ávallt fyrir. VBM býður útgefendum skráðra og óskráðra verðbréfa upp á samning um útgáfu og þjónustu.