Fréttir og tilkynningar

Verðbréfamiðstöð Íslands tengist Millibankakerfi Seðlabanka Íslands

Samkeppni tryggð á sviði verðbréfamiðstöðva

27. jan. 2021

Verðbréfamiðstöð Íslands („VBM“) hefur tengst nýju Millibankakerfi Seðlabanka Íslands og getur nú veitt fulla þjónustu með uppgjör rafrænna verðbréfa. Þar með hafa skapast forsendur fyrir samkeppni á markaði sem hingað til hefur verið einokun á í um 20 ár. Undirbúningur VBM hófst árið 2015 og er því um langþráðan áfanga að ræða, en félagið er í breiðri eigu íslenskra lífeyrissjóða, bankastofnana og annarra fagfjárfesta.
Sérstaða VBM felst í því að vera að fullu íslenskur valkostur sem starfrækir verðbréfauppgjörskerfi og annast uppgjör viðskipta. Peningalegt uppgjör verðbréfa VBM fer fram í Millibankakerfi Seðlabanka Íslands.

Núverandi þátttakendur verðbréfauppgjörskerfis VBM eru Arion banki, Íslandsbanki og Seðlabanki Íslands sem þar með geta sent inn viðskiptafyrirmæli með rafræn verðbréfa til uppgjörs, auk þess að stofna reikninga fyrir viðskiptavini sína til vörslu rafbréfa. Verðbréfauppgjörskerfi VBM uppfyllir kröfur laga um uppgjör rafrænna verðbréfa.

Um Verðbréfamiðstöð Íslands
Verðbréfamiðstöð Íslands er hlutafélag í eigu innlendra fagfjárfesta m.a. lífeyrissjóða og banka og starfar samkvæmt íslenskum lögum og heyrir undir fjármálaeftirlit á Íslandi. VBM gegnir hlutverki sem þjónustuaðili útgefenda og fjárfesta sem umsjónaraðili rafbréfa. Við útgáfu rafbréfa í kerfi VBM verður útgefandi aðili að rafrænni miðlun til fjárfesta. Réttindi eigenda eru varðveitt rafrænt og staðfesting um eignarhald og réttindi liggur því ávallt fyrir. VBM býður útgefendum skráðra og óskráðra verðbréfa upp á samning um útgáfu og þjónustu.